13. janúar 2026
Á nýju ári er gert ráð fyrir að verð á gulli og silfri taki enn meiri kipp, í kjölfar mikilla hækkana árið 2025. Silfur hóf árið á um 30 dali á únsu áður en verðið rauk upp í 70 dali, á meðan gull hækkaði úr 2.600 dölum á únsu í hámark sem fór yfir 4.300 dali. Hvers vegna þetta skiptir máli Verð gulls og silfurs getur endurspeglað almenna stöðu efnahagsmála, bæði á uppgangs- og samdráttarskeiðum. Þættir á borð við verðbólgu, framboðstruflanir og geopólitíska spennu hafa veruleg áhrif á verðþróun málmanna. Sérfræðingar á fjármálamörkuðum benda á að vaxandi verðbólga styðji jafnan við hærra verð á bæði gulli og silfri. Verðbólga í Bandaríkjunum er enn yfir 2% markmiði bandaríska seðlabankans. Það sem vert er að vita Svissneski bankinn UBS telur að gullverð geti farið allt upp í 5.400 dali við mikla pólitíska og efnahagslega spennu í Bandaríkjunum. „Í fyrsta lagi er um að ræða spennu þrungið alþjóðlegt umhverfi, bæði pólitískt og efnahagslega, auk almenns veikleika í bandaríkjadal og lítillega lægri vaxta,“ sagði Juan Carlos Artigas, alþjóðlegur rannsóknarstjóri World Gold Council, í samtali við KITCO News. „Ef við tengjum þetta tvennt við jákvæða verðþróun þá hefur fjárfestingaeftirspurn stutt enn frekar við frammistöðuna.“ Helsta frávikið væri ef bandaríski seðlabankinn, Federal Reserve, gripi til vaxtahækkana á árinu 2026. Slík þróun gæti leitt til lækkunar á verði gulls og silfurs. „Ef hins vegar verður vart við væga niðursveiflu í bandaríska hagkerfinu, sem knýr seðlabankann til vaxtalækkana og veikir bandaríkjadal enn frekar, gæti það stutt við áframhaldandi hækkun gullverðs,“ sagði Artigas. „Það væri reyndar háð hraða og umfangi þessara vaxtalækkana, en gullverð gæti hækkað um á bilinu 5% til 15%. Ef efnahagsástand versnar enn frekar – hvort sem er vegna versnandi alþjóðlegra aðstæðna eða sem afleiðing af núverandi efnahagsstefnu – gæti fjárfestingaeftirspurn aukist verulega.“ Kevin Thompson, forstjóri 9i Capital Group, segir að hann búist við áframhaldandi hækkunum á verði gulls og silfurs, „aðallega vegna þess að ríkisstjórnir – ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur víða um heim – reka gríðarlegan og viðvarandi hallarekstur.“ „Þessir málmar eru takmarkaðar auðlindir og hafa lengi verið taldir vörn gegn verðbólgu,“ sagði Thompson í samtali við Newsweek. „Þegar gjaldmiðlar halda áfram að rýrna, einkum bandaríkjadalurinn, tel ég að gull og silfur verði áfram eðlilegt mótvægi við þá þróun.“ Alex Beene, kennari í fjármálalæsi við háskólann University of Tennessee í Martin, sagði við Newsweek að árið 2025 hafi verið eitt það sterkasta fyrir gull og silfur síðan seint á áttunda áratugnum. „Þar sem efnahagsleg óvissa var viðvarandi allt árið leituðu margir fjárfestar í gull og silfur sem öruggt skjól,“ sagði Beene. „Ólíklegt er að málmarnir endurtaki 60% og 150% hækkanir, hvor um sig, á árinu 2026 en áframhaldandi hækkun veltur bæði á peningastefnu stjórnvalda og almennum hagvexti.“ Það sem fólk er að segja Kevin Thompson sagði einnig við Newsweek: „Stóran hluta síðasta áratugar voru verðbólgu-leiðréttar ávöxtunartölur gulls og silfurs tiltölulega hóflegar. Það hefur nú breyst. Gull hefur nú brotist yfir sitt fyrra verðtryggða hámark, á meðan silfur er enn langt undir og þyrfti að hækka í 170–200 dali á únsu til að ná sama árangri.“ Alex Beene sagði jafnframt: „Ef hæstiréttur fellir núverandi tollastefnu úr gildi gæti það orðið til þess að fjárfestar snúi sér að öðrum eignum. Sama gildir ef vöxtur fyrirtækja, bæði innanlands og á alþjóðavísu, verður meiri en búist var við. Þá yrðu gull og silfur síður aðlaðandi. Ef hins vegar eitthvað af efnahagslegri óvissu ársins 2025 heldur áfram inn í nýtt ár gætu málmarnir haldið áfram að hækka verulega.“ Hvað gerist næst? Þar sem verð á gulli og silfri heldur áfram að hækka bendir Kevin Thompson á að það geti hafi víðtækar afleiðingar fyrir alþjóðlega skuldastöðu. „Heildarmyndin er ekki tilefni til bjartsýni heldur umhugsunar,“ sagði hann. „Langvarandi hallarekstur á heimsvísu er farinn að hafa áhrif að nýju. Ríki geta aðeins haldið skuldastöðu sinni í yfir 100% af vergri landsframleiðslu í takmarkaðan tíma áður en verðbólga lætur verulega á sér kræla. Mörg lönd standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd og líklegt er að hátt verðlag haldist. Sögulega hefur slíkar aðstæður oft leitt til efnahagslegs álags, félagslegs þrýstings og í sumum tilvikum borgaralegra óeirða.“