„Gull gæti auðveldlega tvöfaldast í verði" – forstjóri JPMorgan
„Gull gæti auðveldlega tvöfaldast í verði – skynsamlegt að halda því í eignasafni,“ segir Jamie Dimon forstjóri JPMorgan
Í ljósi núverandi markaðsaðstæðna telur Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan, að það sé skynsamlegt fyrir fjárfesta að sætta sig við tækifæriskostnaðinn og halda gulli í eignasöfnum sínum, þar sem hinn verðmæti málmur gæti auðveldlega tvöfaldast í verði frá núverandi metverði.
Dimon er sannarlega ekki gullsinnaður að upplagi, svo það eitt að viðurkenna að það sé „ákveðin skynsemi“ að eiga gull, jafnvel eftir miklar hækkanir á verði þess, er veruleg tilslökun af hans hálfu.
„Ég er ekki gullkaupandi – en það gæti auðveldlega farið í 5.000 eða 10.000 dollara í svona umhverfi,“ sagði hann á ráðstefnunni Fortune’s Most Powerful Women í Washington sl. þriðjudag, 14. október.
„Þetta er eitt af þeim tímabilum á minni ævi þar sem það er rökrétt að hafa eitthvað af því í eignasafninu.“
Dimon bætti við að eignaverð væru nú yfirhöfuð of há: „Verðmat er frekar hátt á nánast öllu eins og staðan er núna.“ – (hlutabréfum og skuldabréfum).
Aðrir háttsettir starfsmenn bankans hafa einnig varað við núverandi efnahagsumhverfi og lagt áherslu á mikilvægi þess að halda gulli.
Þann 11. ágúst sl. sagði David Kelly, yfirhagfræðingur hjá J.P. Morgan Asset Management, að fyrirbyggjandi vaxtalækkanir Seðlabanka Bandaríkjanna muni kynda undir verðbólgu. Hann ráðlagði fjárfestum að dreifa eignum sínum í óhefðbundnar og alþjóðlegar eignir – eins og gull – til að verja sig.
Í ítarlegri verðbólguspá sem hann birti á LinkedIn, skrifaði Kelly að verðbólgan í Bandaríkjunum væri við það að hækka aftur.
„Í hagkerfi sem enn er í vexti ætti þessi viðvarandi verðbólguhækkun að vera nóg til að sannfæra seðlabankann um að halda stýrivöxtum óbreyttum, þar sem þeir eru ekki hamlandi miðað við söguna,“ bætti hann við. „Hins vegar, vegna pólitísks þrýstings, búumst við nú við að þeir lækki stýrivexti um 50 punkta á þessu ári og 75 punkta á því næsta.“
Kelly sagði að þessar vaxtalækkanir muni líklega ekki nægja til að örva hagvöxt eða auka almenna verðbólgu, en þær gætu hækkað verð á húsnæði og öðrum eignum.
„Auk þess að kunna tímabundið að lækka vaxtakostnað ríkisins, gætu þær einnig gert langtímahorfur ríkisfjármála verri með því að gera ríkisstjórninni kleift að reka ríkissjóð með ennþá stærri frumhalla og grafið undan trausti fjárfesta á staðfestu seðlabankans í því að halda verðbólgu í skefjum,“ voru varnaðarorð frá Kelly.
„Fyrir fjárfesta myndi viðvarandi verðbólga takmarka möguleg tækifæri til söluhagnaðar af hágæða skuldabréfum, jafnvel þótt seðlabankinn létti á peningastefnunni eða hagvöxtur drægist saman. Hún gæti einnig, með tímanum, aukið þrýsting til lækkunar á gengi dollarans.“
„Þetta undirstrikar þörfina á að auka fjölbreytni í eignasöfnum og að þau innihaldi bæði óhefðbundnar og alþjóðlegar eignir,“ sagði Kelly.
Kelly sagði að búist væri við að vísitala neysluverðs (CPI) myndi hækka úr 2,8% í júlí í 3,5% fyrir lok árs 2025, áður en hún lækkar aftur í 2,8% fyrir lok árs 2026.
„Við búumst við að verðbólga mæld með neysluverðsvísitölu (consumption deflator) hækki úr 2,6% í júlí í 3,3% á fjórða ársfjórðungi 2025, áður en hún lækkar í 2,4% árið 2026,“ sagði hann.
Þótt Kelly telji að verðbólga yfir markmiði ætti að vera næg ástæða til að halda stýrivöxtum óbreyttum, benti hann á að það væri önnur tegund verðbólgu sem gleymist oft: verðbólga í eignaverði.
„Mikið hefur verið rætt um hækkandi neysluverð undanfarin ár, þar sem CPI hefur hækkað um 26% á sex árum fram til júní 2025,“ skrifaði hann. „En það er vert að hafa í huga að á sama tíma hefur miðgildi söluverðs á einbýlishúsi hækkað um 51% og S&P 500 vísitalan hefur hækkað um hreint ótrúleg 111%.“
„Ofurlágir vextir á þessum tíma hafa aukið verulega auð bandarískra heimila, en einnig gert húsnæði óviðráðanlegt fyrir margar ungar fjölskyldur og skapað eignabólur sem gætu endað illa. Þótt þetta sé ekki beint hluti af umboði bandaríska seðlabankans, væri skynsamlegt að bæta ekki frekari eldsneyti á þessa eignabólumyndun.“
Að lokum sagði Kelly að bandaríski seðlabankinn „hefði enga góða ástæðu til að lækka lántökukostnað ríkissjóðs“.
„Þótt það virðist eftirsóknarvert að lækka vaxtakostnað sem nú nemur meira en helmingi hallarekstrarins, þá er raunverulega vandamálið ekki tregða markaðarins við að fjármagna hann, heldur tregða almennings til að kjósa fulltrúa sem eru tilbúnir að taka á hallanum,“ sagði hann.
„Lægri skammtímavextir gætu strax leitt til hærri langtímavaxta ef fjárfestar teldu að seðlabankinn væri tilbúinn að sætta sig við meiri verðbólgu til lengri tíma til að þóknast stjórnvöldum til skamms tíma – og að peningastefnan væri ekki lengur raunverulegt aðhald gegn áframhaldandi aukningu ríkisútgjalda.“
Kelly skrifaði þá að hann búist við því að seðlabankinn lækki vexti um 25 punkta í september og aftur um 25 punkta í desember 2025.
„Þótt verðbólgu- og atvinnuhorfur réttlæti ekki slíkar lækkanir, búumst við samt við að seðlabankinn láti verða af því,“ sagði hann. „Rökin verða líklega þau að þetta sé á jaðrinum á hvorn veginn, og þar sem verðbólgan muni síðar lækka, geti það varla skaðað að lækka vexti fyrirbyggjandi.“
Kelly kallaði þetta „hættalega röksemdafærslu“.
„Peningastefna er löng röð ákvarðana á jaðrinum og í gegnum söguna hefur seðlabankinn tekið slíkar ákvarðanir í samræmi við umboð sitt frá þinginu og, eins og Jay Powell segir gjarnan, alfarið í þágu almennings,“ skrifaði hann.
„Ef seðlabankinn víkur frá þessu, jafnvel í jaðartilfellum og jafnvel til að verja sjálfstæði sitt, þá felur það í sér hættu á að grafa undan trausti á fjármálakerfi Bandaríkjanna – og þar með bandarískum eignum og dollaranum.“
„Í ljósi þessarar áhættu, og þess að líkur eru á áframhaldandi nokkuð hárri verðbólgu, er skynsamlegt fyrir fjárfesta að auka fjölbreytni sinna eignasafna svo þau innihaldi óhefðbundnar eignir, einkum þær sem verja best gegn verðbólgu, sem og erlendar eignir í öðrum gjaldmiðlum,“ sagði Kelly að lokum.
JPMorgan hefur ávallt lagt að fjárfestum að aukin fjölbreytni landfræðilega og í gjaldmiðlum sé lykillinn að því að ná árangri miðað við núverandi markaðsaðstæður.
Í maí sagði Grace Peters, yfirmaður alþjóðlegrar fjárfestingastefnu hjá JPMorgan, að bæði evrópskir og bandarískir hlutabréfamarkaðir ættu að standa sig vel á árinu 2025 – en að gull ætti þó eftir að skara fram úr.
„Við teljum að hagvöxtur verði jákvæður, afkoma fyrirtækja jákvæð, seðlabankinn muni lækka vexti aðeins – en ekki umtalsvert – og það sé bakgrunnurinn sem styður við þá skoðun að landfræðileg dreifing sé lykilatriði. Við erum áfram áhættusækin, en á markvissan og dreifðan hátt,“ sagði hún.
Þegar hún var spurð hvernig JPMorgan lítur á gull í þessu umhverfi, svaraði Peters: „Okkur líkar það enn.“
„Það eru nokkrir mismunandi þættir sem við erum að reyna að taka með í reikninginn,“ útskýrði hún. „Of mikil áhersla á Bandaríkin er einn þeirra, þannig að dreifing, bæði landfræðilega og í gjaldmiðlum, er mikilvæg, en líka bara víðtækari áhættuvarnir. Það hafa orðið augljósar breytingar á því hvernig gull hefur hreyfst síðustu tvö ár og við teljum að þessar strúktúrbreytingar muni halda áfram.“
„Við fórum inn í þetta ár með verðmarkmið fyrir gull upp á 3.500 dollara,“ sagði Peters. „Við höfum nýlega brotist í gegnum þann verðmúr (í lok apríl). Þannig að ef við horfum 12 mánuði fram í tímann, þá teljum við að gullverð yfir 4.000 dollara á únsu sé raunhæft markmið, þar sem helsti drifkrafturinn verður frá seðlabönkum í nýmarkaðsríkjum.“
„Þegar staða seðlabanka í nýmarkaðsríkjum er skoðuð í samanburði við þá seðlabanka í þróuðum ríkjum, þá hafa þeir svigrúm til að styrkja stöðu sína í gulli og staðsetja sig nær þeim síðarnefndu. Við búumst einnig við aukinni eftirspurn frá gullsjóðum (ETF) og smásölum.“
Hún bætti við að þar sem búist er við áframhaldandi hagvexti, ætti eftirspurn eftir gulli í skartgripum og tæknigeiranum einnig að haldast góð og jafnvel vaxa á næstu 12 mánuðum.








