SILFUR hefur hækkað mikið að undanförnu og hefur verð á silfri aldrei verið hærra
Verð á silfri hefur rokið upp í methæðir í aðdraganda væntrar vaxtalækkunar bandaríska seðlabankans (stýrivextir voru lækkaðir um 25 punkta 10. des.) og vegna áframhaldandi mikillar eftirspurnar tæknigeirans eftir efninu. Silfur fór í fyrsta sinn yfir 60 dali á únsu á svokölluðum „spot-markaði“ sl. þriðjudag (9. des.), þar sem viðskipti fara fram með tafarlausri afhendingu.
Gull, sem náði metverði fyrr á þessu ári vegna vaxandi áhyggja af áhrifum bandarískra tolla og efnahagshorfa í heiminum, hækkaði einnig í verði í þessari viku. Fjárfestar hafa tilhneigingu til að færa fé sitt yfir í fágæta málma eins og gull og silfur þegar vextir lækka og Bandaríkjadalur veikist.
Almennt var talið að bandaríski seðlabankinn myndi lækka stýrivexti sína um 25 punkta á miðvikudag, sem hann og gerði. „Þegar vextir eru lækkaðir kaupa fjárfestar gjarnan eignir eins og silfur því ávinningurinn af því að halda fé á bankareikningi eða kaupa skammtímabréf minnkar,“ segir Yeow Hwee Chua hjá Nanyang Technological University í Singapore.
„Það flytur eðlilega eftirspurnina yfir í eignir sem taldar eru góðar til að geyma verðmæti, þar á meðal silfur,“ sagði hann.
„Fjárfesting í svokölluðu „öruggu skjóli“ er einnig stór hluti skýringarinnar á nýju metverði gulls síðustu mánuði, þegar það í fyrsta sinn hefur farið yfir 4.000 dali á únsu. Hækkun silfurs má einnig rekja til „afleiddra áhrifa“ af hækkun gulls þar sem fjárfestar leita ódýrari valkosta,“ segir Christopher Wong, greinandi hjá OCBC bankanum.
Gull hefur hækkað um meira en 50% á þessu ári, meðal annars vegna mikilla kaupa seðlabanka. Verð á platínu og palladíum hefur einnig hækkað á árinu.
Eftirspurn er meiri en framboð
Sérfræðingar segja að verð á silfri hafi einnig hækkað vegna þess að öflug eftirspurn frá tæknigeiranum hafi orðið meiri en framboðið. Þetta hefur hjálpað til við að tvöfalda verð silfurs á árinu og það hefur þar með skákað öðrum fágætum málmum, þar á meðal gulli.
„Silfur er ekki bara fjárfestingareign heldur mikilvæg auðlind og æ fleiri framleiðendur hafa þörf fyrir efnið,“ segir Kosmas Marinakis, prófessor við Singapore Management University.
Silfur, sem leiðir rafmagn betur en gull eða kopar, er notað í framleiðslu á vörum á borð við rafbíla og sólarsellur. Sérfræðingar búast við að aukin sala rafbíla ýti enn frekar undir eftirspurn eftir silfri, og þróun á rafhlöðum fyrir rafbíla skapi þörf fyrir enn meira af því.
En það er erfitt að auka framboð silfurs hratt þar sem meirihluti heimsframleiðslunnar er aukaafurð úr námum sem aðallega vinna aðra málma eins og blý, kopar eða gull.
„Verð á silfri hækkar einnig vegna áhyggja af því að Bandaríkin kunni að setja toll á það sem hluta af viðskiptastefnu Donalds Trump. Ótti við slíka tolla hefur einnig leitt til birgðasöfnunar á silfri í Bandaríkjunum, sem hefur valdið skorti annars staðar í heiminum.
Bandaríkin flytja inn um tvo þriðju af því silfri sem þau nota, bæði í framleiðslu, skartgripi og fjárfestingar. Framleiðendur hafa keppst við að tryggja sér nægar birgðir svo framleiðsla truflist ekki, sem hefur hjálpað til við að hækka verðið á heimsmarkaði,“ segir prófessor Kosmas Marinakis.
Hann bætti við að hann reikni með að verð á silfri haldist hátt á næstu mánuðum.
HEIMILD: BBC 10.12.25











